Hvað er Anarkismi? Útgáfa Bókasafn Dreifing Hafa Samband
Fréttir / Uppfærslur Greinar Bækur um Anarkisma TenglarMyndir

SORI:Manifestó

Valerie Solanas

Þýðing Dr.Usli

Bók 5 í smábókaflokki Nýhil

 

Undirritaður varpaði öndinni léttar við lestur SORA:Manifestó. Hjarta mitt fagnaði; loksins er komin út róttæk bók á íslenskri tungu, loksins eitthvað sem rífur svo mikinn kjaft að ég hef engu við að bæta, loksins rit sem krefst eyðileggingar, algerrar eyðileggingar allra kúgandi kerfa án nokkurra málamiðlana. (Upprunamálstitillinn S.C.U.M. stendur fyrir „Society for Cutting Up Men“).

SORI:Manifestó lýsir karlmanninum sem „fullkomlega sjálfhverfum, fanga sjálfs sín, ófærum um hluttekningu og samsömun við aðra, um ást, vináttu, alúð og blíðu." Tilfinningalegt óöryggi karlmannsins gerir það að verkum að hann reynir stöðugt að breiða yfir það gagnvart öðrum og útfæra það yfir á aðra (konur). Hann reynir stöðugt að sanna karlmennsku sína en er þess algerlega ófær (þar sem karlmennska hans er einskis virði, karlmaðurinn getur aldrei verið neins virði nema sem manneskja og það kann hann ekki). Hann er verr á sig kominn en api því hann hefur „ólíkt apanum, yfir að ráða litrófi neikvæðra tilfinninga." Hann reynir að ríða tilgang og merkingu í tilveru sína og er „tilbúinn að synda yfir fljót af hori, vaða nasadjúpa ælu kílómetrum saman ef hann heldur að vinaleg píka bíði á hinum endanum." En vegna sektarkenndar, skammar, ótta og óöryggis snýst einnig kynlífið um að sanna karlmennskuna; unaðurinn verður í lágmarki og hann finnur ekki til samkenndar með maka sínum fyrir nú utan „þráhyggju um það hvernig hann sé að standa sig."

Vegna vankanta sinna raðar karlmennskan sér upp í öll form valdapýramída og ber ábyrgð á eftirfarandi; stríði, peningakerfinu (sem gerir manneskjur að viðfangsefnum í eigin samfélagi), útbreiðslu og viðhaldi eigin ómanneskju gegnum fjölskyldulíf (og þar með bælingu einstaklingsins), bælingu einkalífsins, félagslegri einangrun og bælingu samfélags, samræmingu manneskja (þar sem fjölbreytnin ógnar óstöðugu valdi karlrembunnar), yfirvaldi og stjórnun, heimspeki, trúarbrögðum og siðaboðum sem byggjast á kynferði, fordómum, samkeppni innan samfélaga, kúgun allrar mögulega opinnar umræðu, bælingu á vináttu og kærleik, almennum leiðindum, leynimakki, ritskoðun, þekkingarkúgun, vantrausti, ljótleika (gegnum arkitektúr, sjá reðurform Smáralindar), hatri og ofbeldi, veikindum og dauða.

Hverju þessara atriða í þessari upptalningu í SORA fylgir nánari útskýring á hvernig karlmennskan fer að því að valda þessum óhroða. Síðan fer Solanas út í að leita lausna við þessu hrikalega vandamáli sem gallaðir karlmenn valda: „Að leita lausnarinnar innra með sér, naflaskoðunin, er ekki rétta svarið, eins og þeir vilja meina sem gefast upp." Jóga og hugleiðsla sem lausn fyrir einstaklinga sem eru á einhvern hátt meðvitaður um vandamál heimsins er ekkert nema passívur níhilismi. Solanas sér fyrir sér hreyfinguna SORA. „SORI mun ekki standa verkfallsvörð, mótmæla, fara í kröfugöngur eða leggja niður vinnu til að ná fram markmiðum sínum ... SORI mun alltaf starfa undir formerkjum glæpa en ekki borgaralegrar óhlýðni, þ.e.a.s. í stað þess að brjóta lögin opinskátt og fara í fangelsi til að vekja athygli á óréttlæti  ... Slíkar aðferðir viðurkenna réttmæti kerfisins í heild ... SORI vill eyðileggja kerfið, ekki öðlast réttindi innan þess."

Solanas segir SORA muna markvisst eyða karlmönnum með drápum og geldingum og rústa kerfunum sem byggjast á kúgun karlmennskunar með skæruhernaði. SORA hreyfingin er þær harðskeyttu, hugrökku og frábæru konur sem ekki hafa fórnað sjálfi sínu og látið sig aðlagast kerfinu. SORA konurnar munu eyðileggja peningakerfin innanfrá.

Samkvæmt æviágripi Valerie Solanas mun texti þessi að einhverju leyti vera táknrænt meintur. Það skiptir lesandann ekki máli því hann eða hún er sjálfur fær um að túlka textann og ákveða útfrá skilningi sínum á honum hvað sé að þeim valdapýramídum sem Solanas lýsir og hvernig sé rétt að bregðast við þeim.

Ég les í SORA:Manifestó sömu gagnrýni og margir nútíma andstæðingar þeirrar einsleitu siðmenningar, sem hefur tekið yfir megnið af heiminum, hafa sett fram.  Solanas var ekki að reyna að vera gáfuleg eða að öðlast viðurkenningu þegar hún skrifaði heldur vildi hún eyðileggja þau kúgunaröfl sem hún ólst upp við. Fársjúk eðliseinkenni karlrembunnar eru öll til staðar út um allt í okkar samfélagi og almennt eru þau látin óáreitt. Solanas brýtur þau upp á kraftmeiri og kjaftforari hátt en nokkur nútíma feministi þorir að láta sig dreyma um.

Árás hennar er um leið árás á kapítalismann því allir geta séð að t.d. bankadrengirnir sem gerðu ísland endemafrægt í útlöndum eru ekkert annað en hormónadrifnir strákpjakkar sem óöryggi karlmennskunnar rekur áfram í stöðugri keppni við eigið persónulausa egó. Til að sanna sig settu þeir heilt fjármálakerfi á höfuðið ... og skilja ekki enn þá að þeir hafi gert eitthvað rangt. Auðvitað á að gelda svona menn (les. taka af þeim valdastöður).

Eftir skotárás sína á Andy Warhol eyddi Solanas mörgum árum sem vistmaður á stofnunum fyrir geðsjúka. Það dregur ekki úr krafti þessa manifestós (Nietszche einhver?) eða innblæstri þess fyrir undirritaðan. Þarf maður ekki að vera klikkaður til að vera einlægur í þessum heimi?

Að lokum þá er þýðingin frábærlega unnin og sett fram á kjarnyrtu og flæðandi máli.

Takk nýhil.

sh

 

Til baka í umfjallanir